Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Gleðileg jól

Við Ingibjörg sitjum hér fyrir framan sjónvarpið, Heimir er að stússast í eldhúsinu í sósugerð og mamma og pabbi fóru í kirkjugarðinn. Allir pakkar eru komnir undir tréð og kveikt er á öllum jólaljósum. Til að toppa þetta allt saman er veðrið yndislega fallegt, stillt og kalt og hvít jörð. Einmitt það sem ég var búin að óska mér! Þegar við vöknuðum í gærmorgun var allt hvítt og hefur það haldist, algjör draumur.

Ég opnaði öll jólakortin áðan og skammast mín ekkert fyrir það! Heiða og Símon komu hérna og þá sagði Heiða mér að þau opnuðu sín kort alltaf í hádeginu á aðfangadag. Fannst þetta alveg brilljant hugmynd og eins og Heimir sagði að þá verður víst nóg um að vera í kvöld í pakkaflóðinu. Nákvæm tímasetning á þessu var kl. 15. Mér finnst ég samt hafa staðist þessa þrautaraun og ætla að gera þetta aftur á næsta ári!! Er mjög ánægð með mig Happy

Allir eru orðnir spenntir fyrir kvöldinu og hefur Ingibjörg ekki rifið upp einn einasta pakka ennþá. Hún skilur að það eigi ekki að opna pakkana fyrr en í kvöld, og trúið mér, þá verður stuð Wink Hún stoppar samt iðulega við jólatréð og virðir fyrir sér pakkaflóðið. Það væri gaman að vita hvað hún væri að hugsa.

En jæja, ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla, elsku vinir nær og fjær. Vona að þið hafið það gott yfir þennan yndislega tíma.

Gleðileg jól.


Fagra Ísland

Mikið óskaplega er nú ljúft að vera komin heim. Hlakka til að vera alkomin í lok janúar. Ekkert ferðavesen lengur, allavega ekki svona ört og langt!

Annars er bara allt fínt í fréttum. Familyan er öll búin í klippingu og allir eru búnir að fá ný föt (ég semsagt líka, það tókst í H&M daginn áður en við fórum heim) svo við lendum ekki í kettinum. Við skreyttum jólatréð í fyrradag og fannst Ingibjörgu það alveg æðislegt. Hún setti yfirleitt 2-3 kúlur á hverja grein og var ægilega ánægð Smile Hún er alveg að missa sig í jólagleðinni, hrópar uppyfir sig á hverjum morgni þegar hún lítur í skóinn í glugganum og er alveg með á nótunum að það megi ekki opna pakkana strax. Svo mætir jólasveinninn í hús á morgun með gjöf og er ég alveg gífurlega spennt að sjá viðbrögðin Wink Hún er mjög hrifin af jólasveinunum og er ekki hrædd við þá, en það er spurning hvernig þetta verður þegar öll athyglin beinist að henni.

Ég er búin að pakka inn öllum gjöfum og skrifa öll kort, svo nú á bara eftir að gera loka léttu þrifin og fara í jólabaðið! Held að þá sé allt tilbúið.

Það streyma hingað jólakort og ég ætla bara að segja ykkur það að ég er ekki búin að opna NEITT!! Finnst ég hafa mikinn sjálfsaga og sýni mikla stillingu. Ætla að opna kortin á aðfangadagskvöld, á eftir pökkunum. Kannski bara uppí rúmi, áður en ég byrja á Arnaldi Tounge

Þorláksmessa á morgun, hafið það gott kæru vinir.


Jólafrí

Mér gekk vonum framar í prófinu í morgun, og get sagt ykkur það að ég hef sennilega ekki fallið Smile (þori ekki að segja að ég hafi náð, hitt hljómar betur). Og það var markmiðið sem ég setti mér þegar ég var í metro á leiðinni á Österport í morgun. Svo já ég er sátt. Prófið gilti 60% og verkefni og skylduumræður rest. Ég hef fengið fínt út úr því svo vonandi verður lokaeinkunn ekki alveg það lélegasta.

Ingibjörg var heima í dag en fer í leikskólann á morgun. Er orðin nokkuð hress, en að vísu með hósta.

Feðginin eru sofnuð og er ég búin að eiga náðuga stund með sjálfri mér að skrifa jólakort. Jiii hvað mér finnst það skemmtilegt. Kveikti á dagatalakertinu (það er mér hjartans mál að brenna alltaf einn dag í einu, má alls ekki fara yfir á næsta dag), fékk mér piparkökur og mjólk og spilaði jólatónlist. Algjör unaður skal ég ykkur segja.

Af skafdagatalinu er þetta að frétta: mig vantar eitt hreindýr og þá vinn ég 5000 Dkr!! Enn tek ég bara einn dag í einu (jeminn ég er bara orðin eins og alkarnir!) og ætla mér að halda því og taka dagatalið með mér til Íslands! Heimir varð eitthvað spenntur yfir sínu svo hann skóf allt í dag!! (Og vann ekki neitt.) Ég hef því vinninginn og er farin að hafa óbilandi trú á sjálfri mér að sína stillingu. Ég mun hinsvegar láta reyna á það betur núna þegar jólakortin fara að streyma inn. Hef ákveðið að REYNA að opna þau ekki fyrr en á aðfangadagskvöld. Ég veit, þið hafið heyrt þetta áður... en hafi þið trú á að ég geti þetta? Vilji þið heita á mig? Þá eru meiri líkur á að ég geti þetta Tounge

Styttist all verulega í Ísland. Ég þarf að fara í bæinn áður en við förum. Það verður nóg að gera fyrir brottför. Pakka inn gjöfum, fara til Hrafnhildar og co og svo erum við að spá í að kíkja í Tívoli á morgun þegar Ingibjörg er búin á leikskólanum. Það verður gaman að sjá öll ljósin í myrkri. Hlakka til.

En já, vildi bara láta við af prófinu, og takk fyrir baráttukveðjurnar Wink

Gullkorn dagsins:

Vonin lífs er verndarengill.

Kristján Jónsson Fjallaskáld


Veikindi

Hér er ekki skemmtilegt ástand! Ingibjörg sárlasin með hita, hósta og ælu, og ég að reyna að læra fyrir þetta blessaða próf sem er á fimmtudaginn. Er ekki alveg að sjá þetta fyrir mér. Heimir ætlar þó að vera heima á morgun svo þá ætti ég að geta lært eitthvað. Ekki skemmtilegt. Rétt fyrir prófin hugsaði ég einmitt, að vonandi yrði barnið ekki lasið meðan ég væri í prófunum. En já svona er þetta.

Ég er farin upp í rúm. Spurning um að skella sér fyrst í sturtu, mér finnst allt anga af ælulykt Sick Ógeð!

 


Eitt búið

Jæja, fyrsta prófið var í morgun og gekk það vel. Næsta próf er á fimmtudaginn og er ég strax komin með í magann yfir því. Þroska- og námssálarfræði heitir það, stórt fag og hryllilega mikið efni, samt ekki leiðinlegt, bara MIKIÐ. Nú er bara að skipuleggja tímann vel fyrir prófið. Enn og aftur segi ég að ef ég fell í því prófi þá tek ég það aftur upp í ágúst. Himin og jörð ferst ekki, og ég mun alveg geta haldið gleðileg jól Wink

Við Heimir fórum í Fiskitorfuna í vikunni. Náðum að klára allar jólagjafirnar! Mikið var það nú gott. Ferlega gaman að versla þarna. H&M búðin er t.d. alveg hjúmongus og miklu meira úrval þarna heldur í þeim búðum sem ég er vön. Ég ætla reyndar að fara eins og eina ferð eða svo, áður en við förum heim. Kaupa jóla- og afmælisgjöf handa Heimi og kíkja á fatnað fyrir SJÁLFA MIG, svo ég fari ekki í jólaköttinn! Eitt er víst að feðginin fara ekki í köttinn Smile

Ingibjörg var svo heppin að hún var valin 1 af 4 börnum af deildinni sinni til að fara í jólatívolí í gær. Þau fóru í Nisselandið þar. Það var víst ægilega gaman og var hún sú eina sem fékkst til að sitja hjá jólasveininum Grin Eftir tívolíið fóru þau svo út að borða á McDonalds. Frábært alveg hreint.

En jæja, það er komin helgi enn eina ferðina. Styttist sko í að við förum heim. Jii hvað það verður ljúft. Við hjúin erum orðin all svaðaleg um hárið!! Ég á tíma 20. des og Heimir 21. Guð hvað ég hlakka til! Það eru að verða komnir FJÓRIR mánuðir síðan síðast... ojjojj Sick Heimir er kominn með það mikið hár að flaksar um í vindinum LoL Haldiði að það sé ástand hérna!?!

En góða helgi öllsömul. Lærdómur og jólatívoli á dagskrá þessa helgina.

Gullkorn dagsins:

Vitringur hefur sagt mér að lífið sé aðeins daggardropi á lótusblómi.

Tagore

 


Gleðilega aðventu

Kominn 2. desember og nákvæmlega 22 dagar til jóla. Hugsið ykkur hvað tíminn er fljótur að líða. Aðeins 2 vikur í að við komum Íslands! Er sko orðin spennt! Hinsvegar er ekki vika í fyrsta prófið mitt og er ég ekki eins spennt fyrir því. Segi það enn og aftur, ég er bara engan veginn að nenna þessu!

Það var mikið að gera hjá okkur í gærmorgun við að opna öll dagatölin á heimilinu. Ingibjörg opnaði sitt súkkulaðidagatal, hún virtist alveg skilja það að það mætti ekki opna nema bara einn og svo tautar hún bara: einn á dag Wink Svo var auðvitað Pyrus opnaður líka. Ég opnaði mitt myndadagatal sem ég fæ árlega sent frá Líönu frænku, og svo sköfuðum við hjónaleysin lottódagatölin okkar! Ég keypti nefnilega svona skafdagatal handa okkur, og nú er aðal spennan að vita hvort ég geti skafið einn dag í einu, en ekki allt í einu! Hef átt svona dagatal heima á Íslandi og drifið mig bara í að skafa allt á fyrsta degi! Núna ætla ég hinsvegar að sýna mikla stillingu og þroska Tounge Við erum samt búin að gera díl að skafa restina daginn sem við förum til Íslands.

Við skelltum okkur í Fields í gær. Nenntum ómögulega að taka Ingibjörgu með svo við skutluðum henni til Hrafnhildar þar sem hún var í góðu yfirlæti hjá frændsystkinum sínum. Við náðum að kaupa nokkrar jólagjafir og klára ýmislegt, ætli það séu ekki ca. 4 gjafir eftir. Ætla að fara í Amagercenter í vikunni og reyna að klára þetta þá. Við vorum svo í kaffi, kvöldmat og skemmtilegheitum hjá Hrafnhildi fram á kvöld. Mikið á ég eftir sakna þeirra!

Sigurlaug, bláa úlpan var til, bara ekki í hans númeri. Ég fer í fleiri búðir og tékka á þessu.

Við fórum svo á Skoppu og Skrítlu í dag. Það var svoooo gaman! Við skemmtum okkur öll alveg konunglega. Þær eru alveg yndislegar, allt var svo heimilislegt og skemmtilegt. Svo var boðið upp á Appelsín og Malt í gleri Happy og íslenskt sælgæti! Alveg frábært. Ingibjörg fór svo til þeirra í myndatöku og var gjörsamlega að deyja úr feimni Grin hún vildi nú samt alveg vera hjá þeim, það var ekkert mál.

Love Actually er í sjónvarpinu, hún er svo yndisleg þessi mynd. Held samt að réttast sé að læra smá fyrir svefninn... það væri alveg þjóðráð!

Gullkorn dagsins:

Hvað er ég? Hvað ert þú? Hvað er hún? Hvað er hann?

Sama hönd, sama önd, sama blóð! -                                                                                                 Að slá skjaldborg um réttlætið, maður við mann, það er menningin, íslenska þjóð.

Jóhannes úr Kötlum


Höfundur

Úrsúla Manda
Úrsúla Manda

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband