Leita í fréttum mbl.is

Dansi dansi

Föstudagskvöldin eru alveg heilög hér á bæ. Fyrst fær Ingibjörg að horfa á klukkutíma Disney show á DR1 og svo tekur við Vild med Dans fyrir okkur mæðgurnar. Þetta eru æðislegir þættir hreint út sagt! Handboltagaurinn minn og hans dama eru dottin út svo nú eru það Robert og Marianne sem eru mitt par sko! Held mikið upp á þau og vona að þau vinni þetta. Fannst þau rosalega flott í kvöld.  Hún er náttúrulega algjört ÆÐI og hann er svo ótrúlega mikil dúlla, en jafnframt alveg helv... flottur!! Tounge Er hinsvegar með æluna í hálsinum yfir Lai og Mie Sick Finnst þau svoooo glötuð. Er líka hrifin af Vicki og Steen, þau eru bæði svo yndisleg og fengu einmitt í kvöld fullt hús stiga (40 stig) í fyrsta skipti í þáttunum. Þau eru flott.

Annars er ég svona nokkurn veginn búin að ákveða mig með tölvumálin. Held að það vitlegasta í stöðunni sé að taka "krækiberið" eins og Sigurlaug orðaði það Grin Eins og Heimir segir að þá erum við að fá þvílíka gripinn fyrir ekki mikinn pening. En svona ykkur að segja munar meira en 50.000 kr á þessari tegund hér og heima. Já það er ekki bara kjúklingurinn sem er ódýrari hér í Danaveldinu Wink

Róleg helgi framundan, ekkert planað annað en að Hrafnhildur og co koma á morgun í lummukaffi, það verður gaman. Hafið það gott um helgina kæru vinir.

Gullkorn dagsins:

Heilbrigð skynsemi er í rauninni ekki annað en botnfallnir hleypidómar sem minni vort og sálarlíf hafa innbyrt fyrir 18 ára aldur. Hver ný hugmynd, sem fyrir manni verður síðar í lífinu, verður að stríða við þetta hrúgald af skoðunum sem menn telja sjálfsagðar.

Albert Einstein


Meira um tölvur

Nú er ég alveg orðin rugluð í þessum tölvumálum. Almáttugur... Heimir er búinn að skoða málin og segir að nú þurfi ég bara að velja! Ég fæ stundum valkvíðaköst og nú er ég stödd í einu slíku. Valið stendur á milli Dell Inspiron eða Dell XPS M1330! Það sem ég vil og svo það sem hann vill. Við ætlum að panta tölvuna hérna úti í Danmörku því verðmunurinn er gífurlegur... og þá meina ég GÍFURLEGUR. Það sem er að trufla mig í sambandi við að kaupa Inspiron hérna er að þá er danskt stýrikerfi á tölvunni. Og bara ekki hægt að fá annað. Það sem mér finnst miður með XPS tölvuna er að það er svo lítill skjárinn á henni, eða 13 tommu. Ég vil helst ekki minni en 15 tommu og það fengi ég á Inspiron. En svo er auðvitað annað mál að ég myndi læra á danska stýrikerfið eins og allt annað, en mér finnst samt leiðinlegt að hafa það danskt! Og auðvitað myndi ég venjast minni skjá. Þá hafi þið það! Getur einhver aðstoðað mig? 

Hef þetta ekki lengra í bili... hugsa ekki um annað en þessar tvær tölvur í augnablikinu og á sjálfsagt eftir að dreyma þær í nótt, svei mér þá! 

Gullkorn dagsins:

Menn skyldu varast að halda að þeir viti nú alla skapaða hluti þó þeir hafi lesið eitthvert slángur af bókum því sannleikurinn er ekki í bókum, og ekki einu sinni í góðum bókum, heldur í mönnum sem hafa gott hjartarlag.

Halldór Laxnes


Tölvur og dagatöl

Mér heyrist á öllu að ég sé loksins að fá nýja tölvu!! Jájá Grin og nú get ég ekki beðið!! Heimir hélt að hann þyrfti ekki að hafa tölvuna með sér í skólann, en nú er það að breytast. YES! Og nú er bara spurning hvað hann velur handa mér. Það verður auðvitað Dell, og mig langar í Inspiron - HVÍTA! Hann er hinsvegar eitthvað að vesenast með D630 held ég. Hann segir að þær séu betri en hinar, en mig langar ekkert í svoleiðis, þær eru bara gráar alveg eins og þessi sem við eigum. Svo langar mig í tölvu með stórum skjá, hann vill hinsvegar lítinn. Held ég fái samt ekki stærri en 15 tommu. Það verður gaman að vita hvað kemur úr þessu Wink 

Pyrus jóladagatalið er komið í hús, 1. des mætti því koma á morgun Wink Keypti ekki Disney dagatalið því það sem ég vildi var ekki með súkkulaði, bara einhverjum Jelly Beans. Langar ekki að gefa henni svoleiðis. En það var til eins Disney súkkulaði dagatal og hún fékk í fyrra. Það er með Pooh og félögum. Hitt er bara svo ferlega flott, með Mikka mús og co. Spurning um að kaupa bæði og flytja súkkulaðið yfir í Mikka mús. Já það er hugmynd.

Annars virðist kúlan ekki vera köngulóarbæli. Sýnist á öllu að þetta sé bara bóla. Varð fyrir svolitlum vonbrigðum, þar sem ég var búin að ákveða að taka upp á video þegar þær myndu brjótast út og sýna ykkur. En það gerist kannski seinna. 

Gullkorn dagsins:

Í velgengni geta rætur ósigurs leynst og í ósigri rætur velgengni.

Karl de Gaulle


Jóla - jóla - jóla

Já aðeins 2 mánuðir í Þorláksmessu! Og þessir mánuðir eiga eftir að líða OFUR fljótt skal ég ykkur segja. Ég kom við í Super Brugsen þegar ég var búin að fara með Ingibjörgu á leikskólann, þar voru þeir í óða önn að raða upp jólavörunum!! Ég virtist falla í trans þarna í smá stund og rankaði við mér þar sem ég stóð með sólheimaglott fyrir framan hillurnar! Jólasælgæti, jólaseríur, jólaskraut, jólaservéttur, jóla, jóla, jóla. Ætla að fara þangað á morgun í jólaleiðangur. Ætla að kaupa súkkulaði dagatal frá Disney handa Ingibjörgu og svo er ég að hugsa um að kaupa Pyrus sjónvarpsdagatalið. Veit reyndar ekkert hvort daman eigi eftir að fíla þessa þætti en það kemur í ljós. Ég get þá kannski skemmt mér yfir þessu um leið og ég kíki í dagatalið Tounge Jeminn einasti hvað ég hlakka til!!

Eitthvað eru Danirnir nú aftarlega á merinni í Greys Anatomy. Izzie og George sváfu saman í síðasta þætti... alveg sko! Svo er ég nú á norsku 2, hélt þeir væru kannski komnir lengra. Neinei, þeir eru að sýna þáttinn þegar pabbi George deyr! Svei mér þá! Ég sem er búin að sjá fyrstu tvo þættina í nýju seríunni og er ekki alveg að geta beðið í svona langaaaannn tíma. Arghhh! Ætli ég endi ekki með að fá Hermann bara til að brenna fyrir mig á disk sem ég tek svo með mér um jólin. Hermann, er það ekki? Wink Það yrði veisla!

Í dag uppgötvaði ég kúlu hægra megin á enninu, alveg upp við hársrótina. Ef ég ýti á hana þá er þetta sama tilfinning eins og um mar sé að ræða. Ég hef samt ekkert dottið eða rekið mig í. Það  sem ég ímyndað mér þá að þetta sé, er að könguló hafi verpt þarna og eftir viku skríða litlar köngulær þarna út. Ég er alveg sjúklega hrædd við köngulær, þannig að þetta kæmi afar illa við mig. En kannski er þetta bara bóla! Nei örugglega köngulóarbæli. Ég hef samt með árunum náð að vinna í þessari fælni minni þannig að ég get verið nálægt þeim. Eða þannig... ef ég sé svona kvikindi á gólfinu, næ ég í glas og skutla því yfir það og býð svo eftir að einhver komi til að taka hana. Þetta gat ég ekki fyrir ca. 15 árum. Einu sinni þurfti ég meira að segja að sækja mér hjálp til nágrannana þegar ég var ein heima. Þá var ein skríðandi á vegg inni í stofu. Man ekki hvor það var Jón Gunnar eða Palli sem kom mér til bjargar þá. Gott að eiga góða granna! Smile  

Gullkorn dagsins:

Menn drekka úr öllum pyttum ef þeir vita ekki hvar uppsprettan er.

Álfur Larsen


Hitt og þetta

Ég er búin með Ólaf Jóhann, Höll minninganna. Kláraði hana í nótt, gat ekki lagt hana frá mér svo ég var að lesa til 3. Þvílíkt góð bók! Skældi tvisvar yfir henni. Nú er ég byrjuð á Skíðaferðinni sem ég keypti mér á vellinum síðast. Líst nú bara þokkalega á hana, en mér líður ekki vel að lesa hana. Vorkenni stráknum frekar mikið. Næst á dagskránni er svo Slóð fiðrildanna eftir Ólaf. Var að spá í að lesa hana núna, en ákvað svo að kannski væri of mikið að lesa 3 bækur eftir hann í röð. En ég bíð spennt eftir að byrja á henni.

Annars áttum við mjög rólega helgi. Á sunnudeginum lágum við mæðgur uppí rúmi til hádegis að lesa. Ægilega notalegt.

Eldaði lasagna í kvöld. Best að taka það fram að ég hef aldrei búið til lasagna. Mér hefur samt alltaf fundist þetta gott, en einhverra hluta vegna ekki gert þetta. Þegar ég var í Vogunum eldaði Júlía Rós eitt kvöldið lasanga og ég ákvað að fylgjast með frá grunni. Er svo búin að gera þetta tvisvar síðan ég kom heim. Ægilega gott. Í fyrra skiptið notaði ég nautahakk en í kvöld ákvað ég að nota hreindýrahakkið sem við eigum jú nóg af! Eins og mér þykir nú hreindýrakjöt ljúffengt að þá get ég ekki sagt það sama um hakkið! Finn alltof mikið bragð af því... vont kjöt bragð. Ég er reyndar afar skeptísk á hakk yfir höfuð. Borða t.d. ekki hamborgara og mjög sjaldan nauta hakk. Missi alltaf matarlystina ef ég fæ svona brjósksinaógeð uppí mig. Þetta sem maður getur nuddað á milli tannanna... ojjbarasta!! Sick En héðan í frá mun ég nota nautahakk í lasagnað mitt! Langar svolítið að prófa bara grænmeti... á einhver uppskrift af góðu grænmetislasagna handa mér?

Gleymdi að segja ykkur að það er búið að stela hjólinu hans Heimis! Ömurlegt! Við uppgötvuðum það síðasta mánudag, en því var sennilega stolið þá helgi. Ferlegt. Ég var nýbúin að tala um að við værum búin að búa hér í ár og ekki enn búið að stela af okkur hjóli. Hefði betur átt að þegja. Ég færi örugglega að skæla ef mínu hjóli yrði stolið. Á það nefnilega til að bindast dauðum hlutum sterkum böndum og persónugera þá, svo sem bílana sem ég hef átt. Erum að bíða eftir að heyra frá tryggingarfélaginu hvað kemur út úr þessu, og svo er bara að fara á stúfana og kaupa hjól.

Próftaflan er komin á hreint. Fer í próf 7. 13. og svo 19. des. Finnst fínt að hafa ágætann tíma á milli prófanna, en finnst samt leiðinlegt að vera búin svona seint. En það er ekki á allt kosið. Ég tek fyrstu tvö hérna úti, og svo síðasta heima í Verkmenntaskólanum. Get nú ekki ímyndað mér að ég eigi eftir að læra mikið undir það próf. Verð þá komin heim, jólin alvega að koma og sjálfsagt nóg um annað að hugsa en prófið. En ef ég fell þá tek ég það bara upp aftur í ágúst, ekki málið! Wink

Hringdi og pantaði jólaklippinguna handa fjölskyldunni. Feðginin fara 18. des og ég fer svo 20. Þá búin í prófunum. Get ekki ímyndað mér hvernig ég verð þá orðin útlítandi, en þá verða akkúrat 4 mánuðir síðan síðast. Ojoj, held ég verði bara að halda mig að mestu inni og þá með húfu ef ég fer út. 

Jæja ætla upp í rúm að lesa, góða nótt.

Gullkorn dagsins:

Sá sem horfir til stjarnanna snýr sér ekki undan.

Leonardo da Vinci


Góður dagur

Það var yndislegt veður þegar við vöknuðum í morgun svo ég hringdi á leikskólann og gaf Ingibjörgu frí. Við tókum okkur til og fórum í dýragarðinn. Mikið var gaman. Það er kominn flóðhestur og fékk hann glænýtt húsnæði, svaka flott. Og svo eru komin tígrisdýr, hjón með þrjú börn Smile Ferlega gaman. Fullt af fólki því það er jú haustfrí. Mjög fyndnir þessir Danir, þeir nesta sig alltaf. Alveg sama hvert þeir eru að fara eða hversu langt. Alltaf eru þeir með nesti! Ég er ekki ennþá dottin í þennan gír, ætli ég verði ekki orðin svona þegar við förum heim. Þá fer ég ekki yfir Oddskarðið nema með nesti Grin Mér finnst bara svo gaman að stoppa á veitingastað og fá mér að borða. En auðvitað er það dýrt ef maður er t.d. með þrjú börn... en samt svo gaman! Hér er ein mynd af Ingibjörgu með vinkonu sinni. Hún elskar þessar dverggeitur! Vill bara knúsa þær og kyssa. Og já, hún kyssti eina í dag sem kyssti hana á móti. Það var bara fyndið Okt 351LoL En finnst ykkur daman vera eitthvað bleik? Neinei bara smá *hósthóst-stendurímér*

Seinnipartinn komu Hrafnhildur, Andri Snær og Patrekur í kaffi. Alltaf gaman að fá þau í heimsókn. Ingibjörg er líka alveg sérstaklega hrifin af þeim frændum sínum, enda eru þeir yndislegir.

Og meira af veðri og leikskólanum. Sigurlaug, ég á eina sögu handa þér sem þú getur hneykslast yfir!! Einn daginn kom ég með Ingibjörgu í fínu veðri, milt, gott og skýjað. Þegar ég kom voru allir krakkarnir inni að leika. Ég spyr, eins og ég geri alltaf þegar þau eru inni, hvort þau séu ekki að fara út? Veistu hvaða svar ég fékk... "Nei það er spáð rigningu!!!" SPÁÐ rigningu?! Og nota bene þegar ég sótti dömuna þá höfðu þau ekkert farið út, OG það hafði EKKERT rignt allan daginn! Mér finnst þetta bara alveg með ólíkindum og þetta fer svaðalega í taugarnar á mér!

Gullkorn dagsins:

Talaðu ekki fjálglega um hraðann, dagarnir eru jafnlangir og fyrr.

Jón frá Pálmholti


Rigning

Ég vígði regngallann minn í morgun þegar ég hjólaði með Ingibjörgu á leikskólann. Tók mig bara vel út á hjólinu í turkís lituðum gallanum Tounge Góður plús að ég varð ekki brjáluð í skapinu, enda alveg þurr innan undir gallanum! Böggar mig allsvakalega að krakkarnir á leikskólanum skuli ekki fara út þó það sé rigning. Eins og í dag. Það var ekkert að veðri, það var hlýtt, enginn vindur, aðeins rigning. Og ekki einu sinni mígandi. Svo þegar Heimir sótti hana seinnipartinn þá voru þau enn inni, og það hafði stytt upp um hádegi!! Arghhh, hvað ég þoli þetta illa. Pottþétt bara leti í þeim að nenna ekki að galla krakkana í og úr pollagöllunum.  

Hún Bryndís Zoega bekkjarsystir mín er afmælisbarn dagsins, hún er semsagt orðin þrítug! Til hamingju mín kæra, ef þú lest þetta Wizard 

Gullkorn dagsins:

Takið kærleikann burt - og heimur okkar verður gröf.

Róbert Browning 


Heim um jólin

Erum búin að bóka flug heim um jólin! Förum 16. des og austur 17. Erum aðeins að vesenast hvenær við ætlum suður aftur. Heimir fer út 6. jan og við Ingibjörg 13. jan. Ég fer í staðlotu 7.-11. jan og þá verður Ingibjörg eftir fyrir austan. Við Heimir erum hinsvegar að spá hvort við ættum að fljúga saman suður 4. jan og eiga bara næs helgi tvö fyrir sunnan. Erum að reyna að plana þetta, er að vesenast með hvar við ættum að vera og annað. Það kemur í ljós. Finnst bara draumur að vera búin að kaupa miða! Fljúgum með Icelandair, en þeir bjóða fínt yfirvigtartilboð um jólin Wink 15 kg yfirvigt á mann og einnig ef flogið er áfram innanlands með Flugfélaginu. Við ættum því að mega vera með 105 kg allt í allt! Og það er svona það sem ég er vön að ferðast með Blush En já, ég er semsagt farin að velta yfirvigtinni fyrir mér... í október!

Hlakka orðið allverulega til jólanna. I know... Ekki batnaði það þegar ég fór í Jysk í dag að kaupa nýja sæng handa Ingibjörgu. Á móti mér tóku jólasveinar og annað jóladót! Æðislegt! Ég meira að segja keypti smá jóladót og kom heim alsæl. Heimir ranghvolfdi hinsvegar í sér augunum... veit ekki hvað hann átti við með því *hóst*! En þetta er víst eitt af því sem hann verður að sætta sig við ef hann ætlar að búa með mér alla sína ævi. So get use to it!! Ég þarf eiginlega að sitja á höndunum á mér að fara ekki niður í geymslu og sækja jóladótið. Mér finnst það reyndar ekkert of snemmt, væri alveg til í að nota næstu helgi í að skreyta og setja upp seríur. En ég ætla ekki að ganga alveg fram af Heimi. Spurning að bíða til 10. nóv.

Okt 250Annars var kvöldið æðislegt! Fórum út að borða og svo í Tivolíið. Það er komið í Helloween búninginn, ferlega flott allt saman. Það var mikið gaman að hitta Líönu og Udo. Ingibjörg er svo rosalega hrifin af þeim að það er alveg yndislegt, því hún hefur nú ekki oft hitt þau. Hún var svo farin að hoppa á milli hinna hjónanna sem voru þeim og var alveg í essinu sínu. Ég er nú reyndar viss um að þetta er þýska taugin í henni... hún finnur á sér að þetta er alveg eðalfólk Grin Hér er húOkt 232n svo hjá Udo og Líönu. Veit ekki hvernig verður með morgundaginn, þau ætluðu að reyna að fara í síkjasiglingu og túristast eitthvað áður en þau leggja í hann aftur. En mikið er nú gaman að geta haft tækifæri til að hitta þau svona oft og jafnvel spontant. Þetta væri ekki hægt ef við værum á Íslandi. Sko, hér er einn kostur við að vera í Danmörku Wink Við ætlum svo að reyna að finna einhvern tíma á næsta ári til að fara til þeirra. Það er alltaf verið að bjóða hræódýr flugfargjöld til Basel í Sviss, og það er aðeins í hálftíma fjarlægð frá Opfingen. Gaman, gaman. 

Gullkorn dagsins:

Maður er þá fyrst vel kvæntur þegar hann skilur hver orð sem kona hans segir - áður en hún hefur sagt nokkuð.

Alfreð Hitchcock


Letiiii

Ekkert búið að hrjá mig annað en leti síðan ég kom heim. Samt bara leti varðandi bloggið Smile Nú er Júlía Rós hinsvegar búin að hvetja mig svo mikið, að ég bara varð að spýta í lófana og byrja aftur! So let the show begin Cool

Allt fínt að frétta. Ingibjörg er svo ánægð á leikskólanum að það er alveg yndislegt. Hún kveður mann með kossi og bros á vör, og tekur eins á móti manni. Mér líður vel, fyrst henni líður vel. Skiptir öllu! Ómögulegt að vita af barninu óánægðu því þá er maður sífellt að velta sér uppúr því. En ég þarf þess ekki... sem betur fer! Smile

Heimir er búinn að vera lasinn í tvær vikur! Hann var kominn með sýkingu í ennis- og kinnholurnar, lufsaðist loksins til læknis og fékk penicillin og er nú allur að hressast. Það er haustfrí þessa vikuna svo hann er ekkert í skólanum. Við ætlum nú bara að hafa það náðugt, gefa Ingibjörgu frí á leikskólanum á fimmtudaginn og skella okkur í dýragarðinn. Hún er enn að tala um síðustu dýragarðsferð, og minnist reglulega á stóru fílana og apana. Þá aðallega hvað það var vond lykt inni hjá öpunum Wink eiginlega bara fyndið þegar hún er að lýsa því. Slær hendinni framhjá nefinu á sér, fussar og segir: Ufff lykt apa! Grin

Líana og Udo eru að koma á morgun. Þau stoppa reyndar stutt, gista á hóteli eina nótt og fara aftur á miðvikudag. Eru bara í smá heimsókn með vinafólki sínu. Við ætlum auðvitað að hittast og förum út að borða annaðkvöld á Bryggeriet. Við frænkur erum svo að spá í að eiga smá stund bara tvær á miðvikudeginum. Finna okkur eitthvað til dundurs. Hlakka til. 

Gullkorn dagsins:

Auðvelt er að gera við rifna úlpu barnsins þíns en hvöss orð rífa sundur hjarta þess.

Longfellow


Heima er best

Mikið er nú gott að vera komin heim, það var sko alveg yndislegt að hitta feðginin á flugvellinum. Ferðin gekk vel, við Áslaug vorum samferða svo tíminn flaug áfram. Annars var ég með 20 kg í yfirvigt. Jájá, matartaskan var 13 kg, hreindýr, fiskur, fiskibollur og svo allt þetta góða íslenska. En svona ykkur að segja þá slapp ég í gegn Cool Veit ekki hvað skal segja... Heimir sagðist héðan í frá bara ætla að þegja og láta mig um þessa yfirvigt Wink

Er byrjuð á Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann. Ferlega góð. Fékk hana lánaða hjá Júlíu Rós ásamt Slóð fiðrildanna. Keypti mér svo Skíðaferðina eftir Emmanuel Carrére á vellinum. Þórey mælti með henni, en ég hef aldrei þorað að lesa hana. Keypti hana núna svo ég ætla að láta verða að því.

ANnars ætlaði ég bara rétt að láta vita af mér. Ein mynd af okkur mæðgum í lokin á flugvellinum í gærkvöldi. Okt 111Ingibjörg komin í nýju kerruna sína og er sko alveg hæstánægð með hana. Ég fattaði svo í morgun að ég steingleymdi að kaupa svona regnhlíf yfir kerruna. Verð að redda því.

Ætla upp í rúm að lesa! Góða nótt.

Gullkorn dagsins:

Þú spyrð mig ef til vill hvort sé gott eða vont að vera maður. Veistu hverju ég svara? Ég segi já!

Ólafur Duun 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Úrsúla Manda
Úrsúla Manda

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband