Leita í fréttum mbl.is

Jammí!

Var að enda við að slafra í mig hriiiikalega góðu eplapæi. Upphitað síðan í gær og er bara betra ef eitthvað er. Fékk uppskriftina hjá Siggu Möggu, vona að henni sé sama þó ég setji hana hér inn Wink Málið er að ég hef verið með þetta á heilanum síðan ég smakkaði þetta í byrjun september. Hef ekki lengur tölu á því hversu oft ég er búin að gera þetta síðan þá. Einfalt og fljótlegt, það leiðinlegasta finnst mér að skralla og skera niður eplin. Og svo ég segi bara eins og dóttirin þegar henni finnst eitthvað gott: "Ég er bara alleg sjúkur í þetta!" Hér er uppskriftin:

200 gr. sykur

200 gr. smjör (ég set 150 gr.)

200 gr. hveiti

Þetta er hægt að setja annað hvort í hrærivél eða hnoða saman.

4-6 græn epli

Eplin sett neðst í eldfast mót, kanilsykri stráð yfir (eftir smekk) og svo ljós súkkulaðispænir (líka eftir smekk). Hægt að nota annað súkkulaði, marsipan og bara það sem manni dettur í hug. Deigið er sett yfir þetta allt saman. Inn í ofn á ca. 180 gráður í ca. 30 mín, eða þar til deigið verður gullið og farið að krauma í þessu. Og svo er auðvitað málið að borða mikið af ís með.

Annað sem ég hef verið með á heilanum í nokkrar vikur núna, er Rommý. Súkkulaðið Rommý. Alveg er það nú himneskt. Skil ekki af hverju ekki er hægt að kaupa STÓRT Rommý. Stórt bara eins og Draumur eða Rís. Eitt er nefnilega ekki nóg, eftir ca. 3 er ég orðin sátt. Sé fyrir mér alveg RISA Rommý og þegar maður bítur í, þá lekur gumsið úr. Ummm... Hef verið að velta því fyrir mér af hverju ég er svona sjúk í þetta og er nokkuð viss um að það er áfengisbragðið! Samt finnst mér áfengi ekki svo gott, jú bjór og hvítvín. Ekki mikið meira og alls ekki Rommý Sideways Annars er ég auðvitað bara sælgætissjúk, hef verið það í mörg ár en er einkar slæm núna. Spurning hvort það tengist eitthvað brjóstagjöfinni. Ég hef náð að trappa niður gosdrykkjuna en ég er alveg týnd í sælgætinu ennþá.

Mamma og pabbi koma heim frá Barcelona á morgun. Hlakka mikið til því mamma fór í barna H&M og keypti ALLT sem ég var búin að skrifa á blað og meira til!! Bara veisla Grin


Komin aftur

Jamm það er langt síðan síðast. Gott að taka sér smá pásu. Ætla ekki að tala um það sem er í ÖLLUM fréttum ALLTAF, ALLA daga. Nenni því ekki.

Í þessum skrifuðu orðum eru allir fjölskyldumeðlimir sofnaðir nema ég. Meira að segja kötturinn liggur upp við mig og andar djúpt. Ég sit hérna frammi með kertaljós og er að horfa á Sex in the City. Sunna lánaði mér allan pakkann en ég hef aldrei séð þetta allt, bara þátt og þátt. Er komin á seríu 2 og finnst þetta hin besta skemmtun. Júlía Rós sendi mér 20 ára afmælisútgáfu Opruh um daginn og það var ÆÐI! Grét nú úr mér augun á köflum. Oprah er mögnuð. Nú langar mig að sjá allar 24 seríurnar og Will & Grace.

Ég var í vettvangsnámi í síðustu viku. Mjög gaman, fer aftur í nóvember. Er enn og aftur búin að skipta um kjörsviðið. Ætla að taka almenna kennslu - miðstigið. Þar er komið inn á flest það sem kennt er, tveir áfangar í íslensku, tveir í stærðfræði *hóst*, náttúrufræði og samfélagsfræði. Held að þetta sé rétt ákvörðun hjá mér, ég get þá bara tekið meira í íslensku eða öðru ef mér líst svo á. Kvíði reyndar stærðfræðinni en ég tek á henni, redda mér hjálp ef ég þarf á því að halda.

Ætli það sé ekki best að skríða í bælið, lesa smá. Njótið sunnudagsins!


Dagvaktin

Já ekki klikkaði fyrsti þátturinn af Dagvaktinni. Ég er búin að bíða spennt síðan í maí þegar stöð2 fór að auglýsa þessa þætti, og ég gat sko hlegið í gærkvöldi. Pétur Jóhann er svo hrikalega fyndinn! Ingibjörg pikkar meira að segja upp frasana úr þáttunum, lengi var hún með "Ég á afmæli" (Pétur Jóhann) og svo núna er það nýjasta "Hann er níu ára Ólafur!" LoL Ég veltist um af hlátri og þá tvíeflist hún auðvitað.

Hér er sól og blíða, Ármann Snær kominn út í vagn og ég ætla í sturtu og fara svo að læra. 

 


Stutt á milli

Mér finnst fyndið þegar fólki talar um að stutt sé á milli barnanna minna. Sem sagt 3 ár. Mér finnst 3 ár á milli barna ekki vera stutt. Mér finnst það passlegt. Ég hefði ekki viljað eignast annað barn fyrr né seinna. Held að þetta hafi bara akkúrat verið réttur tími. Stutt á milli finnnst mér þegar tvö ár og innan við það eru á milli barna. (Tala nú ekki um 14 mánuðir eins og hjá sumum Wink) Ég væri samt alveg til í að það myndu ekki líða 3 ár á milli með það þriðja. Eftir 3 ár verð ég 34 ára. Held það væri fínt að vera 33 þegar þriðja barnið kæmi og svo 35 þegar það fjórða kæmi. Neiii nú er ég að grínast Grin Ég hugsa að ég stoppi þegar ég verð komin með þriðja barnið. En svo veit maður aldrei... Jú ég veit það víst, held að 3 sé bara fínt. Ég verð 42 ára þegar Ingibjörg fermist, 45 þegar Ármann fermist og svo yrði ég kannski 47 þegar það þriðja myndi fermast. Vóó þá verð ég orðin svolítið gömul! Jeminn sé það núna þegar ég skrifa þetta svona niður... já kannski ætti ég bara að eiga tvö börn?! Já neinei þrjú verða þau! En ég sé að ég verð greinilega að drífa í þriðja barninu! Vona að þið haldið ekki að ég sé búin að tapa glórunni í þessum hugleiðingum mínum Smile Og já, best að taka það samt fram svona til vonar og vara að ég er ekki ólétt! Endurtek: EKKI ÓLÉTT!

Annars er allt fínt að frétta. Var í skoðun með Ármann Snæ í morgun. Hann er orðinn 7,1 kg! Jájá bara flottur Tounge 

Af skólamálum er það að frétta að ég er búin að segja mig úr einu námskeiði. Ég er semsagt í tveimur námskeiðum núna. Fannst þetta aðeins of mikið og fannst ég ekki njóta þess almennilega að vera í fæðingarorlofi. Geta ekki komist í göngutúr þegar mig langar því þá er ég með samviskubit yfir því að vera ekki heima að læra. Finnst það ekki alveg nógu gott. Svo ég ætla að láta tvö námskeið duga þessa önnina. Ég er samt ekki alveg að nenna þessu og nenni hreinlega ekki að læra, þá sérstaklega í öðru námskeiðinu. En maður má ekki láta svona! Bara að spýta í lófana og drífa þetta af.

Sólin skín í dag, mjög fallegt veður. Við mamma ætlum að labba í bæinn eftir hádegi, og ég ætla ekki að vera með neitt samviskubit Wink 


Ármann Snær

Já litli drengurinn okkar fékk nafnið Ármann Snær, skírður í höfuðið á afa sínum og pabba Smile

Sept 00044

Þetta er búið að vera góður dagur. Athöfnin yndisleg eins og séra Svavari einum er lagið og veislan á eftir skemmtileg. Semsagt allt gott um þennan dag að segja.

Er alveg búin á því og ætla því bara upp í rúm. Góða nótt.

Sept 00050


Smá blogg

Bara rétt að láta heyra frá mér. Allt gott að frétta héðan. Allir dafna vel og Hr. Hlunkur blæs út Grin Nóg að gera fyrir skírnina á morgun og ég get ekki beðið eftir því að geta kallað hann nafninu sínu.

Annars ætla ég að láta ykkur vita af því að við erum ekki að fara að gifta okkur! Það eru nokkrir búnir að spyrja mig að þessu núna undanfarið og virðist þessi saga ganga fjöllunum hærra hér í bæ. Ég get nú ekki annað en hlegið, þeir sem segja þetta þekkja mig greinilega ekki neitt!! Það er ekki í mínum anda að ætla að gifta mig "í kyrrþey" eða suprise. Ó NEI. Ég þarf örugglega ár til að skipuleggja þetta og svo ætla ég að gifta mig í júní eða júlí. Og þá vitið þið það og ekki orð um það meir Tounge

Mígandi rigning núna og drengurinn sefur eins og engill úti í vagni. 


Skólinn og Haribo

Jæja þá er skólinn að byrja hjá mér. Allt að byrja í þessari viku. Ég hlakka nú bara til eins og alltaf þegar ég er að byrja í skóla. Hef verið svona síðan ég var barn. Ég endurnýi reyndar ekki lengur pennaveskið mitt og tösku á hverju ári eins og þá (kaupi mér nú samt yfirleitt einhverja nýja penna) en ég er alltaf með svona spennu í maganum. Ætla að halda mig við þessi 3 námskeið sem ég var búin að skrá mig í og sjá svo bara til þegar líður aðeins á önnina hvort mér finnst þetta of mikið.

Heimir keypti stóran poka af Haribo hlaupböngsum í fríhöfninni á Grænlandi. Skemmst er frá því að segja að ég er á góðri leið með pokann. Hef dundað mér við að borða hann undanfarið. Mikið finnst mér þetta gott. Reyndar finnst mér grænu og gulu bangsarnir bestir og verða þessir rauðu og glæru yfirleitt eftir. Skil ekki af hverju það er ekki hægt að kaupa Haribo poka bara með grænum og gulum böngsum. Er viss um að það eru fleiri sömu skoðunar!

Annars er lífið að falla í eðlilegar skorður. Ingibjörg farin á leikskólann, Heimir byrjaður aftur í vinnunni og við mæðginin bara tvö heim á daginn. Voða notalegt.

10 dagar í skírn Happy mikið hlakka ég til að geta farið að kalla drenginn nafninu sínu.


Klukk - Klukk

María Katrín klukkaði mig - bara nokkuð skemmtilegt Smile

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina

- Nesapótek Neskaupstað

- Nes Apótek Seltjarnarnesi

- Sjúkrahúsapótekið á Lansanum

- Markaðsfulltrúi hjá Austurbakka

Fjórir staðir sem ég hef búið á

- Gauksmýri 4 Neskaupstað

- Austurströnd 10 Seltjarnarnesi

- Islands brygge Danmörk

- Nesbakki 7 Neskaupstað

Fjórar bíómyndir sem ég held uppá

- You've got mail

- Notting Hill

- Legends of the Fall

- Titanic

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar 

- Greys Anatomy

- Brothers and sisters

- Prison Break

- Friends

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríium

- Korsika

- Sardinia

- Feneyjar

- Þýskaland

Fjórar síður sem ég skoða daglega, fyrir utan blogg

- mbl.is

- visir.is

- ugla.hi.is

- ljosmodir.is

Fernt sem ég held uppá matarkyns

- Kjúklingur

- Humar

- Avocado

- Súrmatur

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft

- Austan við sól I og II

- Þriðjudagar með Morrie

- Þyrnifuglarnir

- Annars les ég bækur yfirleitt ekki oftar en einu sinni. Veit samt að ég á eftir að lesa Flugdrekahlauparann aftur.

Fjórir bloggarar sem ég klukka

- Þórey

- Sigurlaug Eva

- Elma

- Svanfríður


Nýjustu tölur

Mikið var nú gaman að fylgjast með strákunum okkar koma til landsins og ég tala nú ekki um þegar þeir fengu fálkaorðuna. Mér fannst líka æði að sjá þá "gömlu" Þorgils Óttar, Geira Sveins og auðvitað hann Kristján minn - sem bar af í glæsileika Cool

Drengurinn heldur áfram að túttna út, óhætt að segja það. Hann fór í 6 vikna skoðun í dag og eru nýjustu tölur 60 cm og 6,1 kg! Ó já, hann er engin smá smíði Smile Hann er 3 cm stærri en Ingibjörg var 6 vikna og HEILU kílói þyngri! Ég veit nú bara ekki hvar þetta endar. Læknir kom svo að skoða hann og fékk hann 10 í einkunn Happy svo flottur strákur!

Ég er að rifna úr syfju hérna svo ég ætla í rúmið. Bið ykkur vel að lifa og góða helgi!


Haustið komið

Jedúdda mía finnst ykkur síðan mín ekki orðin fín?! Svakalega er ég ánægð með hana Smile gaman að breyta svona aðeins til.

Haustið er komið. Er alveg með það á hreinu. Reyndar búið að vera fallegt veður í dag, en það er kominn svona hryssingur í loftið. Týbískt haust. 

Heimir kom til landsins í kvöld, alsæll með þessa ævintýraferð til Grænlands. Ég hlakka til að sjá myndir og heyra sögur. Ég flutti nú bara yfir í Gauksmýrina á meðan og er þar enn! Er búin að vera í góðu yfirlæti hjá mömmu og pabba með börnin. Ætli ég lufsist nú ekki heim til mín á morgun, eða alla vega annað kvöld svo að Heimir komi ekki að tómu rúminu Tounge

Það styttist í skírnina. Mér sem fannst þetta eitthvað svo hrikalega langur tími sem barnið yrði nafnlaust, er nú bara að verða liðinn. Mikið hlakka ég til.

Handboltahetjurnar koma heim á morgun. Ég ætla sko að horfa á útsendinguna frá A-Ö, verst að vera ekki á staðnum. Mikið væri það nú gaman.

En jæja, ætla að fara að sofa. Ingibjörg sefur vært í afa rúmi (þar sem hann er farinn út á sjó), mamma komin upp í til hennar og við drengurinn hreiðrum um okkur inni í mínu herbergi. Bara notalegt Heart Góða nótt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Úrsúla Manda
Úrsúla Manda

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband