Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Pizza og egg

Mamma kom í mat til okkar í kvöld. Gerðum okkur lítið fyrir og pöntuðum okkur pizzu Tounge Mikið svakalega eru pizza67 góðar pizzur, svo ég tali nú ekki um hvítlauksbrauðið! Og já, Egilsbúð er ekki lengur með pítur!! Það leið næstum því yfir mig um daginn þegar ég ætlaði að panta mér kjúklingapítu (ætlaði að gefa þeim einn séns enn). En nei engar pítur á boðstólnum! Hvað er það?!? Ég meina, pítur eru ekki flóknar... þegar þær eru rétt gerðar! Wink

Er búin með fyrsta páskaeggið þetta árið. (Fyrsta af mörgum!) Mamma kom með það í eftirmat Grin Svona lítið egg í álpappír, bara gott. Svo fyrsti páskamálsháttur ársins er:

Það er til lítils að hlaupa ef stefnt er í skakka átt.

Þá er ég búin að horfa á Kompás þáttinn og búin að gráta úr mér augun. Alveg er þetta hræðilegt, óskaplega finn ég til með þessu fólki og rosalega er skrítið að maðurinn skuli hafa verið látinn laus. Óskiljanlegt!

Jæja ætla upp í rúm að lesa. Er enn að lesa bókina hennar Yrsu. Það er ekki að hún er ekki góð, það er ég sem er eitthvað löt við lesturinn. Góða nótt.


Kjörsvið og afmæli

Ég er farin að hallast á að ég hafi valið mér vitlaust kjörsvið í náminu. Mig reyndar grunaði það þegar ég valdi núna, en ákvað nú samt að velja samfélagsgreinarnar. Reyndar finnst mér þessi breyting á náminu alveg útí hött, að velja kjörsviðið svona snemma. Sérstaklega þegar maður er ekki viss. Nú er ég virkilega að spá í að skipta yfir í íslenskuna sem kjörsvið. Ætla að tala við námsráðgjafann þegar ég fer suður og spjalla um þetta við hana. Sjá hvernig þetta myndi þá raðast hjá mér. Ég yrði örugglega óþolandi íslenskukennari... sífellt að leiðrétta fólk! Ég er reyndar svoleiðis nú þegar og hef alltaf verið. En ég ræð bara ekki við mig og áður en ég veit af hrekkur leiðréttingin bara útúr mér. Það eru bara sum orð sem gjörsamlega stinga í eyrun, eins og tengur (ojj ég get varla skrifað þetta), einkanir og fleiri orð sem eru beygð vitlaus.

Annars á Sálin afmæli í dag! Tvítugir takk fyrir. Það þýðir að ég var 11 ára þegar þeir byrjuðu að spila og ætli ég hafi ekki fallið fyrir þeim þegar ég var 12 eða 13. Man eftir fyrstu tónleikunum sem ég fór á í Egilsbúð. Hef þá verið á þessum aldri og þeir voru með dagtónleika fyrir þennan aldurshóp. Eftir tónleikana fengum við eiginhandaráritun hjá Stebba og Gumma, og þá var bara ekki aftur snúið! Hef DÁÐ þá síðan. Ófá böllin sem ég hef farið á, og á tímabili þegar ég bjó fyrir sunnan fór ég á ÖLL böllin... ÖLL! Guð hvað þetta var gaman Grin Sálin er og verður einfaldlega besta hljómsveit ever! Punktur. Hlakka til næsta Sálarballs... hvenær sem það nú verður Tounge

Við Ingibjörg þrífumst bara ágætlega þennan fyrsta dag í einverunni. Enda átti ég svo sem ekki von á öðru.

Þar sem myndirnar við síðustu færslu vöktu lukku (og heimþrá) set ég þessa hér líka sem ég tók út fjörðinn.

Mars 061

Það er svo lítið mál fyrir mig að taka mynd á hverjum degi út um gluggann fyrir ykkur, ef þið viljið Wink


Sunnudagur

Enn ein helgin liðin, rosalega líður tíminn hratt! Sem betur fer varð ekkert meira úr veikindum hjá Ingibjörgu, hún var bara heima á mánudeginum og fór svo í leikskólann. Ég hins vegar bíð hreinlega eftir hlaupabólunni, það yrðu undur og stórmerki ef hún slyppi, en maður veit aldrei. Bæði kostir og gallar ef hún fengi bóluna núna. Mér þætti t.d. hræðilegt ef hún fengi hana þegar ég væri í Reykjavík, ég kæmi sennilega bara heim. En svo er spurning hvort ekki væri bara best að klára þetta af áður en hún verður eldri. En þetta kemur allt í ljós.

Heimir er að fara suður á morgun og verður fram á fimmtudag. Við mæðgur því einar heima hér í fyrsta skipti... spurning um að flytja sig yfir í Gauksmýrina á meðan Smile Nei ætli það, mér finnst nú alltaf voða gott að vera ein í smá tíma, það breytist ekkert. Ég fer svo suður á sunnudag eftir viku.

Núna er ég að prjóna leikskólapeysu á dömuna. Ég er hinsvegar alltaf að velta fyrir mér hvort ég eigi að ruslast til að klára skírnarkjólinn sem ég byrjaði einu sinni á. Ég set það bara svo fyrir mig að ég veit ekkert hvernig ég vil hafa hann að ofan, af því ég er ekki með neina uppskrift. Það væri samt svo æðislegt að geta skírt barnið/börnin sitt/sín í kjól sem maður gerði sjálfur. Eða það finnst mér. Sé eftir að hafa ekki klárað hann áður en Ingibjörg var skírð, svo ætli ég myndi ekki sjá tvöfalt meira eftir því ef þetta barn yrði ekki heldur skírt í honum. Hugsa það.

Ég er alveg heilluð af útsýninu sem við höfum hérna á Nesbakka 7. Ég get alveg gleymt mér við að horfa út á fjörðinn. Ég verð góð í fæðingarorlofinu, sé það fyrir mér, þá sit ég hér við gluggann og flygist með skipaumferð, veit alltaf hver er að koma í land og hvernig hefur fiskast Tounge Gáfuleg!

Set hér inn myndir sem ég tók í vikunni, gamlir norðfirðingar geta yljað sér við þær Wink

Mars 045

Mars 046

Já hér er sko fallegt! 


Veikindi og fleira

Ingibjörg er orðin lasin. Það hlaut að koma að því. Hún er búin að vera í leikskólanum í tvær vikur og þar gengur hlaupabólan ásamt fleiri pestum. Reyndar er hún ekki komin með neinar bólur ennþá... er bara með hita. Og kannski verður þetta ekkert meira í þetta skiptið. Heimir verður heima á morgun og ég fer í vinnuna.

Í netleysinu steingleymdi ég að tjá mig um Eurovision. Ég er nú nokkuð sátt við úrslitin. Reyndar fannst mér Hey hey hó hó ferlega skemmtilegt og hefði alveg verið til í að það færi út. Fyrir utan það að mér fannst stelpan skemma lagið en strákarnir voru bara flottir Tounge Ég er ógurlega hrifin af Friðriki Ómari, finnst hann óskaplega myndarlegur drengur, sætur og glaðlegur. Ég þoli hinsvegar stúlkuna ekki jafnvel, en hún syngur vel. Þau eiga eftir að verða okkur til sóma, þó við vinnum þetta kannski ekki Wink

Styttist í suðurferð hjá mér. Og já styttist alla svakalega í páskana!! En ég fer suður að kvöldi 16. mars og kem heim að kvöldi 19. Er búin að panta mér tíma í klippingu hjá Önnu Kristínu, svo ég verð ægilega fín þegar ég kem heim Grin það verða sko komnir 3 mánuðir þá síðan síðast!

Er að horfa á Kaldaljós með öðru. Alveg mögnuð mynd. Þau systkinin eru frábær. Svo ekki sé nú talað um föðurinn, hann er sennilega einn besti leikarinn sem við eigum og höfum átt.

Set inn eina mynd í lokin af Ingibjörgu úr íþróttaskólanum. Það var svo gaman! Mars 017


Trúið þið þessu?

Ég er orðin nettengd!! Ég þurfti ekki að grípa til þessara ráða sem Þórey ráðlagði mér, en trúið mér, ef hann Grétar hefði ekki hringt í mig í gær og tilkynnt mér að ég væri orðin tengd, þá hefði ég sennilega hringt í þá og farið að skæla. En máttur "ljóta" orðsins er greinilega mikill og hef ég ákveðið að nota það í neyð... svona þegar allt annað virðist útilokað.

Annars erum við skötuhjú ein í kvöld. Ingibjörg dvelur hjá ömmu sinni í góðu yfirlæti fram á morgun. Þær nöfnur fóru inn í hesthús að gefa hestunum brauð og pönnukökur. Það endaði reyndar með því að Ingibjörg fór á hestbak með einum hestamanninum. Var víst alveg í skýjunum Smile Það verður gaman að hitta hana á morgun og heyra lýsingarnar.

Við fórum í íþróttaskólann í morgun. Ægilega gaman. Ingibjörg er reyndar svo lofthrædd að hún var nú ekki mikið að príla, svona fyrir utan hvað hún er varkár. En ætli hún verði ekki aðeins kaldari næsta laugardag. Hugsa það. Henni fannst samt þetta samt mikið sport og hljóp og gerði það sem henni þykir skemmtilegt. Var svo ekkert á því að fara heim. Eysteinn er með þessa tíma og þegar hann byrjaði í morgun að tala um hvað ætti að gera og svona, fékk ég algjört flashback og fannst ég vera 12 ára í leikfimi Wink en hann kenndi mér einmitt leikfimi í nokkur ár. Ferlega fyndið.

Annars eru allir bara nokkuð hressir. Mér finnst svona fullmikill vetur búinn að vera núna. Loksins þegar mestur snjórinn var farinn og götur orðnar auðar þurfti að snjóa aftur. Og það er sko bara nokkuð mikill snjór í bænum. En það er ljúft að eiga bílskúr og geta farið í heitan bílinn á morgnanna, svo ég tali nú ekki um að sleppa við að skafa bílinn Smile

Akkúrat ekkert í sjónvarpinu, svo ég er að hugsa um að rifja aðeins upp Nágranna í tölvunni. Langt síðan ég hef horft á þessar elskur. Góða nótt.


« Fyrri síða

Höfundur

Úrsúla Manda
Úrsúla Manda

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 704

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband