Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hæðin

Ætla bara að minna ykkur á lokaþáttinn af Hæðinni í kvöld Happy Endilega kjósið! Ég er búin að kjósa þá félaga Begga og Pacas Cool Í tilefni kvöldsins ætla ég að gera nýja kjúklingauppskrift sem ég fékk frá Hönnu Dísu og mamma kemur í mat, pabbi missir alltaf af öllu skemmtilegu, hann er farinn út á sjó.

Við pabbi fórum í sund í morgun. Í sól og blíðu, alveg æðislegt. Nú er allt orðið skýjað en engin þoka í sjónmáli (svona fyrir þá sem eru veðurþyrstir Grin). Nú er bara spurning hvort það fari að rigna.

Ég hreinlega geri allt annað en það sem ég ætti að vera að gera... að læra! Guð hvað ég nenni þessu ekki. Þetta er alveg leiðinlegur tími. Þvoði bílinn í morgun eftir sund, var heillengi hjá pabba og fór svo held ég í flest allar búðir bæjarins, bara til að fara ekki heim og fá samviskubit yfir því að vera ekki að læra! Arghh! Keypti meðal annars svona bleikt Ragg garn til að prjóna sokka handa Ingibjörgu. Þetta er svona munstrótt-garn og sokkarnir verða ekki eins. Þetta er mikil áskorun fyrir mig og verður spennandi að vita hvort ég muni geta látið dömuna í ósamstæða sokka þegar yfir líkur Tounge En fyrst Sigurlaug gat það, þá hlýt ég að geta það líka!

En nú þýðir ekkert elsku mamma lengur, verð að fara að læra!


Sumar og sól

Má segja að það hafi verið sumar hér í Neskaupstað í dag Happy Hátt í 20 stiga hiti og yndislegt veður. Við Ingibjörg eyddum deginum eftir leikskóla hjá mömmu og pabba, úti á palli og í garðinum. Algjör sæla. Ég held samt að sumrinu sé nú lokið í bili, framundan er víst bara rigning og hitastigið á að vera um frostmark. Ef ég á að vera eigingjörn þá mætti það vera svoleiðis til 16. maí, því þá verð ég búin í prófinu. Það er frekar erfitt að ætla að sitja yfir bókunum þegar það er svona bongóblíða eins og var í dag... það er reyndar bara ekki hægt!

Ingibjörg fékk afmælisgjöfina sína í gær. Já þremur mánuðum fyrir afmælisdaginn! En nú er daman búin að eignast sitt fyrsta hjól. Okkur fannst best að gefa henni það strax svo hún gæti notað það í sumar. Nú vantar bara hjálminn og þá er hægt að fara að bruna hér um göturnar Wink Reyndar kann hún ekki alveg að hjóla, en mér sýnist þetta ætla að koma fljótt hjá henni. Hún á það til að standa bara á bremsunni Smile Sagði við Heimi að mig grunaði að ég hefði ekki þolinmæði í þessa kennslu, svo hann mun taka það að sér.

Við erum að plana ferð til Akureyrar, bara tvö. Já og auðvitað það sem ég get ekki skilið við mig Tounge Ætli við förum ekki í lok maí byrjun júní. Ég er svona að grennslast fyrir með gistingu, líst held ég einna best á Sveinbjarnargerði. Held að það væri ljúft. Ætlum bara að dúlla okkur og vera í 3 daga eða svo. Versla og hafa það nice. Reyndi að fá Heimi með mér til Reykjavíkur, en hann tók það ekki í mál svo AK varð fyrir valinu. Kannski fæ ég mér kött þar W00t

Úfff Greys var góður í kvöld, frábært að þeir séu byrjaðir aftur.


Sveitalíf

Þið eruð nú engan veginn að styðja mig í þessari kattarákvörðun sko!! Svei mér þá Tounge Takk samt fyrir commentin og auðvitað er ég meiri hundakona en kattakona, hef alltaf verið og það breytist örugglega aldrei. Við Heimir erum sammála því að við ætlum að fá okkur hund. Ekki strax samt. Það er ekki möguleiki að við fáum okkur smáhund, erum hvorug spennt fyrir því, svo það yrði annað hvort Golden Retriver (ég vil svoleiðis) eða Labrador (Heimir vill svoleiðis - mér finnst Golden bara fallegri). Ég veit líka að þó ég "gefi" Ingibjörgu eitthvað dýr, þá lendir það auðvitað á mér að hugsa um það. Og eins og staðan er í dag þá veit ég líka að ef við myndum fá okkur hund þá myndi öll vinnan lenda á mér því Heimir er jú ekki mikið heima við sökum vinnu. Og ég er bara ekki að nenna því núna. Og eins og "sumir" bentu á þá held ég að ég yrði ekkert rosalega góður hundauppalandi Wink væri svona meira í því að knúsa og kela við hundinn. Svo ég hugsaði með mér að köttur væri ágætis lausn þangað til! Ég hlýt að geta átt kött eins og allir aðrir. Ég átti nú páfagauk fyrir nokkrum árum og það gekk svona líka vel upp! Heimir stakk upp á kanínu. Hún gæti þá verið úti á svölum. Æji nei ég er ekki alveg til í það, ekkert hægt að knúsast neitt með hana... og líka vond lykt af henni. En já ég ætla að pæla aðeins meira í þessu. Endilega dælið í mig skemmtilegum upplýsingum!

Það var ekki skemmtileg upphringing sem ég fékk um 11 leytið í morgun. Það var verið að fara með Ingibjörgu upp á spítala þar sem hún hefði dottið á hjóli í leikskólanum. Hún væri með skurð á enninu og eitthvað meira til. Ætla ekki að segja ykkur hvað mér brá! Það þurfti sem betur fer ekki að sauma hana, skurðurinn var bara klemmdur aftur. Svo virðast tennurnar nánast hafa farið í gegn um holdið og hún er hrufluð á hökunni og undir henni. Greyið litla. En hún stóð sig eins og hetja og er bara hress.

Seinnipartinn í dag fórum við ásamt mömmu inn á Skorrastað og fengum að kíkja á dýrin. Sáum nýfædd lömb, hest og folald sem kom í heiminn 1. maí, belju og kálf, hænur og hænuunga, og svo auðvitað hund og ketti. Ægilega gaman. Fékk alveg fiðringinn þegar ég hélt á litlu lambi, held ég hafi ekki haldið á lambi síðan afi átti kindurnar. Ingibjörg var alveg í skýjunum og sagði í gríð og erg að lambið væri með krullur "alleg eins og amma" Grin Frekar fyndið. Svo fékk hún að fara á bak á hestinum, og það leiddist henni sko ekki. Ægilega skemmtileg sveitaferð svona í tilefni dagsins Smile

Ætla í vinnuna í fyrramálið og næsta dag og svo ekkert meira fyrr en eftir 16. maí þegar prófið er búið. En nú er það Sjortarinn fyrir svefninn LoL (hrikalega er ég fyndin!)


Meðganga, dýramál og fleira

Allir orðnir hressir hér á bæ. Ingibjörg náði sér af ælunni og uppskar í staðinn þetta sem fer niður á við! Greyið. En það stóð nú ekki lengi yfir sem betur fer og er hún nú komin með matarlyst á við heilan hest! Ég dæli hreinlega öllu í hana sem hún biður um (eða svona nánast) svo lengi sem hún borðar. Leist nú ekki á blikuna þegar ég tók eftir því að naríurnar eru farnar að verða of víðar á hana. En þetta er nú allt í áttina hjá henni.

Ég er komin nákvæmlega 30 vikur og 3 daga í þessari meðgöngu. Mér finnst svo ótrúlegt að það séu rétt tíu vikur í settan dag. En kannski eru bara 8-9 vikur eftir, hver veit. Ég gæti því alveg átt barnið í kringum 26. júní. Nú ef ég færi svo tvær vikur framyfir eins og með Ingibjörgu, þá myndi ég eiga 24. júlí! En við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því! Ég ÆTLA að eiga í byrjun júlí og það MÁ dragast til 14. júlí... ekki mikið lengur. Svo einfalt er það nú Wink 

Ingibjörg er algjörlega dýrasjúk. Hundar, kettir, hestar, kindur, fílar, apar... má eiginlega segja öll dýraflóran. Og hún er ekkert smeyk við þau heldur. Veit fátt skemmtilegra en að fara inn í hesthús og heimsækja hestana t.d. Þyrfti endilega að koma henni á hestbak hjá einhverjum í sumar. En nú er ég alvarlega að spá í að gefa henni kött! Já vona að það líði ekki yfir ykkur. Mér er í rauninni meinilla við ketti og þá svona ketti sem eru úti. Ég gæti hugsanlega átt kött sem færi aldrei út. Væri bara hérna inni og væri hreinn. Myndi sennilega fá taugaáfall ef ég myndi mæta kettinum með fugl eða mús í kjaftinum hérna inni. Myndi bara ekki þola það. Ég er mikið að spá. En svo veit ég ekki, get ég gert venjulegan kött að eðlilegum inniketti? Eða verð ég að fá mér einhverja spes tegund? Ég myndi auðvitað aldrei kaupa mér kött fyrir 100.000 kall, frekar fengi ég mér þá almennilegan hund fyrir 150.000 kr. Er mikið að spá í norskum skógarketti. Veit jafnvel um eina læðu sem er ólétt, en það er samt ekki alveg komið á hreint. Ætli þeir væru fínir innikettir? Endilega þið sem vitið eitthvað um ketti yfir höfuð, segið ykkar skoðun. Gæti svo bara haft matardallinn og sandinn hans inni í þvottahúsi svo það ætti nú ekkert að koma svo mikil lykt. Svo mætti hann auðvitað fara út á svalir og svo gæti ég farið í göngutúr með hann í bandi. Best að taka það fram að Heimir heldur að ég sé orðin eitthvað biluð... mikið biluð!

Náði ekki alveg sambandi við bókina Sakleysingjarnir, svo ég lagði henni og er farin að lesa Sjortarinn, eftir James Patterson. Þvílík snilld! Mæli eindregið með henni. Skráði mig í kiljuklúbb sem heitir Hrafninn og mun héðan í frá fá senda eina glænýja spennusögu annan hvern mánuð. Hef alltaf verið veik fyrir svona bókaklúbbum og erum við mæðgur nú í sitthvorum klúbbnum. Ég var meira að segja í bókaklúbbi þegar ég bjó úti í Ameríku og fékk allt fullt af bókum nánast gefins. Sver það. Allt svo ódýrt í Ameríkunni Tounge

Jæja ætla upp í rúm að lesa!


« Fyrri síða

Höfundur

Úrsúla Manda
Úrsúla Manda

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 705

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband